Lodge steypulok 30 cm.

Vörunúmer: 66L10SC3

  11.500 kr
  Vara væntanleg

Fáðu tölvupóst þegar varan er komin aftur á lager

  • Stærð: 30 cm. í þvermál
  • Efni: Járn
  • Litur: Svartur

Virkar á alla hitagjafa, mega fara í ofn og á grillið.
Ekki nota sápu á pönnuna.
Þurrkið pönnuna mjög vel eftir þvott og olíuberið hana.
Ekki nota ólífuolíu til að olíubera þar sem hún þránar fyrr.

ATH ekki grípa um handfang á pönnunni við eldun nema með ofnhanska.
Pannan nær gríðarlega miklum hita.

Lodge pönnurnar eru steypujárnspönnur sem búið er að baka og olíubera við framleiðsluna.
Með tímanum myndar pannan húð. Það er ekki hentugt að nota tómata eða sýruríkan
mat í steikingu á pottjárnspönnum til lengri tíma þar sem sýran fer ekki vel með járnið.

Þar sem Lodge pönnurnar ná svona miklum hita þá eru þær frábærar til að til að klára
Sous Vide eldunina skella steikinni á pönnuna í augnablik til að fá góða og crispy húð á kjötið.

Lodge hafa framleitt steypujárn í bænum Suður-Pittsburg síðan árið 1896. Verksmiðjan er nú ein eftirlifandi sinnar tegundar í Bandaríkjunum. Fyrirtækið hefur verið fjölskyldurekið frá upphafi og er nú í höndum fjórðu kynslóðar Lodge fjölskyldunnar. Árið 2002 byrjuðu Lodge með nýja línu sem þau kalla Lodge Logic en þá er steypujárnið bakað í feiti og tilbúið til notkunar. Nú eru allar vörur frá þeim meðhöndlaðar á þennan hátt áður en þær fara úr verksmiðjunni og því er ekkert því til fyrirstöðu að skella pönnunni eða pottinum beint á helluna. Steypujárn hefur lengi verið staðalbúnaður í eldhúsum en gengur ný í endurnýjun lífdaga eftir að hafa þótt heldur gamaldags í nýjungagjörnu samfélagi. Engan skyldi undra því steypujárn er bæði fjölhæft og endingargott. Steypujárn er ekki ryðfrítt. Gott er að bera olíu á járnið sem ryðvörn.

 

Hvað get ég eldað í steypujárnspönnu?

Járn þolir mikinn hita og heldur honum vel. Þetta gerir það að verkum að steypujárn brúnar, grillar og „lokar“ (e: seal) mat en er líka hentugt í að malla alls konar gums. Þar koma pottarnir líka sterkir inn. Járnpönnu er gott að nota til að elda kjöt, fisk, grænmeti, pönnukökur og ommelettur meðal annars. Við mælum ekki með því að nota pottjárn til að elda sýruríkan mat því hann getur étið upp „steikinguna“. Þetta getur orðið til þess að það festist meira við pönnuna þegar hún er notuð næst og í verstu tilfellum getur pannan ryðgað í kjölfarið. Önnur afleiðing getur verið járnbragð af matnum sem þó er hættulaust. Sýruríkur matur er til dæmis sósur og súpur sem innihalda mikið af tómat, lauki eða víni. Ef þú hefur eldað eitthvað af þessu í steypujárnspönnunni mælum við með góðri smurningu af venjulegri matarolíu eftir á. Þú gætir jafnvel þurft að steikja pönnuna aftur til.

Hitnar skaftið?

Já. Steypujárn leiðir hita mjög vel og því er óhjákvæmilegt að skaftið hitni. Sumar steypujárnspönnur eru með skaft úr öðrum efniviði sem hitnar síður. Lodge pönnurnar okkar eru steyptar í heilu lagi og hitnar því skaftið til jafns við pönnuna. Hægt er að fá sérstakar skafthlífar á Lodge pönnurnar.

Hvaða áhöld má nota á pönnuna?

Það má nota öll áhöld á steypujárnspönnu. Stáláhöld skemma ekki pönnuna og þótt þau rispi hana lítillega kemur það ekki að sök. Þar sem steypujárnspönnur eru gjarnan notaðar við mikinn hita þarf þó að fara varlega í að nota áhöld úr gerviefni og alls ekki láta þau liggja í heitri pönnunni.

Mega járnpönnur fara inn í ofn?

Já, steypujárn þolir mikinn hita. Þú getur líka skellt pönnunni þinni á grillið eða varðeld, þess vegna! Undantekningarnar eru steypujárnspönnur sem eru með skaft úr öðrum efnivið. Þessar pönnur gætu þolað ofn skemur, við minni hita eða alls ekki. Lodge pönnurnar eru heilsteyptar úr járni og þola þess vegna að vera í ofni eins lengi og mikið og þú vilt.

Ég er með span. Get ég notað járnpönnu?

Já, steypujárn er hægt að nota á allar tegundir helluborða.

Hvernig þríf ég pönnuna?

Ég mæli með því að þrífa hana með heitu vatni strax eftir notkun og sleppa sápu. Stundum þarf að skafa pönnuna að innan með pottsköfu eða spaða. Þegar mikið festist við getur verið gott að setja smá vatn í pönnuna og láta suðuna koma upp en þannig losna matarleyfarnar og nóg er að nota uppþvottabursta. Sniðugt er að nota vín við þessa aðferð frekar en vatn því þannig verður til prýðis sósa. Eftir þrif er gott að smyrja pönnuna með örfáum dropum af matarolíu. Þetta ver pönnuna fyrir ryði og er sérstaklega mikilvægt ef hún hefur verið þvegin með sápu. Járnpanna má alls ekki fara í uppþvottavél eða liggja í bleyti og hana þarf að þurrka strax eftir þvott.

Hjálp! Járnpannan mín er ryðguð.

Ekki örvænta, það er afar ólíklegt að pannan sé ónýt. Reyndu að nudda ryðið burt með stálull, vaskaðu pönnuna vel upp með sápu og steiktu hana upp á nýtt. Hún verður eins og ný í smá tíma en verður með tímanum aftur að gömlu góðu pönnunni. Ryð er eitt af fáu sem getur eyðilagt steypujárnspönnu en þú þyrftir sennilega að gleyma henni í vaskinum í mánuð til að hún ryðgi í sundur. Það er ekki óalgengt að það myndist ryðskellur á járni, sérstaklega ef það líður langt á milli þess sem hún er notuð og/eða hún geymd við of mikinn raka. Þessum skellum er hægt að ná burt með venjulegum uppþvottabursta eða stálull. Við mælum með að bera nokkra dropa af venjulegri matarolíu á pönnuna eftir þvott til að koma í veg fyrir ryð.

Get ég eyðilegt pottjárnspönnu?

Með mikilli fyrirhöfn, já. Það eru tvær leiðir til að eyðileggja járnpönnu: Að brjóta hana eða láta hana ryðga í drasl. Steypujárn er stökkara en flestir málmar og getur þar af leiðandi brotnað við mikið högg. Algengast er að skaftið brotni af. Það þarf ansi mikið ryð til að eyðileggja pottjárn. Í flestum tilfellum er hægt að pússa ryðið burt. Ég keypti einu sinni fagurrauða og ryðgaða steypujárnspönnu í Góða hirðinum sem var orðin eins og ný eftir smá skrúbb og tilsteikingu.

Hver er munurinn á emalíeruðu pottjárni og þessu svarta?

Emalíering er lag af postulíni sem umlykur steypujárnið. Það er brennt við 650-760°C og binst þannig járninu. Þetta lag ver pönnuna eða pottinn fyrir ryði og emalíerað steypujárn má tæknilega séð fara í uppþvottavél. Ég myndi þó aldrei mæla með því þar sem lítið þarf til að brotni úr pottinum og þótt smávægilegt sé er alltaf hætta á að ryð komi í brotið og jafnvel undir emalíeringuna í kring. Áhöld úr stáli geta skaðað húðina og hún er viðkvæm fyrir höggum. Það er lítið vit í járnpönnu sem er emaléruð að innan en pottarnir henta þó betur í hægeldun á sýrumiklum mat en þeir hefðbundnu.

Í stuttu máli sagt…

Kostir:

  • Hægt að nota í nánast alla matargerð
  • Þolir mikinn hita
  • Heldur hita vel
  • Má fara í ofn
  • Má fara á grillið
  • Nánast ódrepandi

Gallar:

  • Þungt
  • Getur ryðgað
  • Þolir illa sýruríkan mat
  • Þarf að vaska upp í höndunum
  • Skaftið hitnar
  • Ekki sérlega byrjendavænt

 

 

 

 

„Áður en þú byrjar að nota pönnuna þarf að steikja hana til.“ Þetta er ekki óalgegn setning við afgreiðsluborðið í ProGastro. Sumum vex þetta í augum en í raun er lítið mál að steikja til pönnu.

„Jú, sjáðu til. Fyrst þarftu olíu…“

Það eru til ótal aðferðir við að steikja til pönnu. Sumir notast við kartöfluhýði, aðrir salt. Margir setja pönnuna á hellu, aðrir inn í ofn og enn aðrir vilja helst fleygja henni á beran eld. Allar eiga aðferðirnar þó tvennt sameiginlegt: Olíu og hita. Hér er einföld aðferð sem gott er að notast við þegar maður er með nýja pönnu í höndunum:

    • Þvoið pönnuna vel með heitu vatni og sápu.
    • Hellið olíu í pönnuna þar til um millimeters þykkt lag er yfir öllum botninum.
    • Setjið pönnuna á hellu og hitið hana yfir meðalhita.
    • Þegar olían byrjar að gufa upp skulið þið hella henni yfir í hitaþolið ílát.
    • Notið pappírsþurrku eða hreina tauþurrku til að fjarlægja umfram olíu og passið að dreifa feitinni upp á kant í leiðinni.

Nú ætti að vera hægt að byrja að steikja án þess að festist við pönnuna en í sumum tilfellum þarf að endurtaka ferlið. Verið þolinmóð og leyfið pönnunni að steikjast til með tímanum. Það mun festast minna og minna við hana með notkun. Ef eitthvað brennur við í pönnunni gæti þurft að steikja hana til upp á nýtt og eins ef hún hefur verið þvegin með sápu eða stálull. Fylgstu með hvort pannan verði mött því það er góð vísbending um þetta. Í raun steikist hún þó til í hvers skipti sem pannan er notuð og náttúruleg húðin í sífelldri endurnýjun.

panna sem á eftir að steikja til

vel til steikt panna eftir margra ára notkun

 

 

 

 

 

 

Náttúruleg húð

Matur festist auðveldlega við pönnu úr hráu stáli eða járni vegna þess hve gljúpur málmurinn er. Þegar við steikjum til pönnu búum við til grunn fyrir náttúrulega viðloðunarfría húð. Hitinn lætur feitina bindast málminum og hún myndar eins konar filmu sem umlykur pönnuna. Með tímanum og aukinni snertingu við súrefni dökknar hún. Þessi litur er í daglegu tali kallaður „patína“. Þegar karbonstálpanna, sem var einu sinni stálgrá á litinn, verður kolsvört veistu fyrir víst að hún er orðin fullkomlega til steikt. Eftir að hafa steikt á mjög háum hita gætir þú tekið eftir brúnni slykju á diskaþurrkunni þegar þú þurrkar pönnuna. Stundum getur pannan litað mat sem steiktur er á henni og á það sérstaklega við um sýrumikinn mat. Þetta er ekki skítur heldur og hefur hvorki heilsufars- né bragðáhrif. Þegar panna verður grá og guggin, jafnvel ryðguð og farið að festast við hana, þarf að steikja hana til upp á nýtt.

Það er hægt að steikja til allar óhúðaðar pönnur, þ.e. pönnur sem eru ekki húðaðar með gerviefnum. Þó er algjörlega nauðsynlegt að steikja til steypujárnspönnur, karbonstálpönnur og aðrar pönnur sem ekki eru ryðfríar. (Athugið að Lodge pönnurnar koma til steiktar frá framleiðanda!)

Steikingin þýðir nefnilega ekki bara að minna festist við pönnurnar. Hún gegnir líka því hlutverki að verja málminn fyrir ryði. Það er ekkert því til fyrirstöðu að meðhöndla ryðfría stálpönnu á þennan hátt og raunar er það mjög algengt í veitingageiranum. Þó er erfiðara að ná jafnri áferð og olían bindst síður krómblönduðu stálinu. Af þessum ástæðum mælum við ekki sérstaklega með því að steikja til ryðfría pönnu.

Hægt er að notast við hvaða feiti sem er til að steikja til pönnu. Við mælum þó með hitaþolinni olíu eins og repjuolíu, sólblómaolíu, kókosolíu eða aðra jurtafeiti. Þessar olíur hafa hátt brennslustig sem minnkar líkurnar á reykmettuðu eldhúsi og vælandi reykskynjara. Áður fyrr notaði fólk gjarnan tólg en hún er ekki jafn vinsæl í dag þar sem tólgin getur þránað með afar óskemmtilegum og illa lyktandi afleiðingum. Ef þú kýst að nota nota dýrafitu til að steikja til pönnuna þína er því eins gott að hún sé í stöðugri notkun. Til að viðhalda áferðinni er gott sleppa sápu og smyrja örþunnu lagi af jurtaolíu yfir pönnuna eftir þvott. Ef pannan verður klístruð þýðir það hins vegar að myndast hefur of þykkt lag af olíu sem ekki hefur náð að brenna inn í járnið. Oftast dugir að þrífa þetta lag af með heitu vatni og grófum bursta.

Fleiri aðferðir

Áður en panna er steikt til er best að þvo hana með heitu vatni og sápu. (Já, sápu!) Við viljum ná allri fitu og óhreinindum af. Nýjar pönnur eru oft húðaðar, ýmist með feiti eða gerviefnum, til að þær ryðgi ekki í flutningi. Notaðar pönnur þarf að skrúbba rækilega og ef pannan er ryðguð eða brunnið er við í henni er gott að nota stálull. Byrjið alltaf á þessu.

Ofnaðferðin

Þessi er vinsæl fyrir steypujárnspönnur. Hún notast við ofn svo pannan þarf að passa í hann og skaftið að þola ofnhita:

    • Smyrjið pönnuna að innan sem utan með þunnu lagi af olíu eða feiti. Passið að setja ekki of mikið því þá verður pannan klístruð að steikingu lokinni.
    • Þekjið ofnskúffu með álpappír tog komið henni fyrir neðst í ofninum.
    • Hitið ofninn í 180°C.
    • Setjið pönnuna á hvolf á grind efst í ofninum.
    • Bakið í minnst klukkutíma og látið pönnuna kólna inni í ofni.
    • Þurrkið umfram feiti af með pappírsþurrku.

Saltaðferðin

Þessi ágæta aðferð er keimlík þeirri einföldu sem við greindum frá fyrst en hér er notað salt. Saltið getur hjálpað til við að hreinsa ryð og óhreinindi af eldri pönnum:

    • Hitið pönnuna yfir meðalhita.
    • Setjið um það bil tvær teskeiðar af fínu salti á pönnuna og bætið matskeið af matarolíu út í.
    • Þegar olían er orðin heit er saltinu og olíunni nuddað með bréfþurrku, fyrst yfir botninn á pönnunni og síðan yfir hliðarnar.
    • Haldið áfram að nudda pönnuna yfir meðalhita í 2 til 3 mínútur.
    • Takið síðan pönnuna af hitanum og þurrkið hana vel með hreinni tauþurrku.

Kartöfluaðferðin

Þetta er svolítið „gamaldags“ aðferð. Sterkjan úr kartöflunum leysir upp óhreinindi sem erfitt er að ná eftir öðrum leiðum. Ágætis leið til að nýta afganga úr eldamennskunni en passið ykkur á lyktinni!

    • Fyllið botninn á pönnunni af kartöfluhýði.
    • Hellið olíu yfir þar til hún flýtur yfir hýðið.
    • Látið olíuna sjóða yfir meðalhita í 15-60 mínútur.
    • Hendið kartöfluhýðinu og olíunni og þurrkið pönnuna.

Tengdar vörur