„Áður en þú byrjar að nota pönnuna þarf að steikja hana til.“ Þetta er ekki óalgegn setning við afgreiðsluborðið í ProGastro. Sumum vex þetta í augum en í raun er lítið mál að steikja til pönnu.
„Jú, sjáðu til. Fyrst þarftu olíu…“
Það eru til ótal aðferðir við að steikja til pönnu. Sumir notast við kartöfluhýði, aðrir salt. Margir setja pönnuna á hellu, aðrir inn í ofn og enn aðrir vilja helst fleygja henni á beran eld. Allar eiga aðferðirnar þó tvennt sameiginlegt: Olíu og hita. Hér er einföld aðferð sem gott er að notast við þegar maður er með nýja pönnu í höndunum:
-
- Þvoið pönnuna vel með heitu vatni og sápu.
- Hellið olíu í pönnuna þar til um millimeters þykkt lag er yfir öllum botninum.
- Setjið pönnuna á hellu og hitið hana yfir meðalhita.
- Þegar olían byrjar að gufa upp skulið þið hella henni yfir í hitaþolið ílát.
- Notið pappírsþurrku eða hreina tauþurrku til að fjarlægja umfram olíu og passið að dreifa feitinni upp á kant í leiðinni.
Nú ætti að vera hægt að byrja að steikja án þess að festist við pönnuna en í sumum tilfellum þarf að endurtaka ferlið. Verið þolinmóð og leyfið pönnunni að steikjast til með tímanum. Það mun festast minna og minna við hana með notkun. Ef eitthvað brennur við í pönnunni gæti þurft að steikja hana til upp á nýtt og eins ef hún hefur verið þvegin með sápu eða stálull. Fylgstu með hvort pannan verði mött því það er góð vísbending um þetta. Í raun steikist hún þó til í hvers skipti sem pannan er notuð og náttúruleg húðin í sífelldri endurnýjun.
Náttúruleg húð
Matur festist auðveldlega við pönnu úr hráu stáli eða járni vegna þess hve gljúpur málmurinn er. Þegar við steikjum til pönnu búum við til grunn fyrir náttúrulega viðloðunarfría húð. Hitinn lætur feitina bindast málminum og hún myndar eins konar filmu sem umlykur pönnuna. Með tímanum og aukinni snertingu við súrefni dökknar hún. Þessi litur er í daglegu tali kallaður „patína“. Þegar karbonstálpanna, sem var einu sinni stálgrá á litinn, verður kolsvört veistu fyrir víst að hún er orðin fullkomlega til steikt. Eftir að hafa steikt á mjög háum hita gætir þú tekið eftir brúnni slykju á diskaþurrkunni þegar þú þurrkar pönnuna. Stundum getur pannan litað mat sem steiktur er á henni og á það sérstaklega við um sýrumikinn mat. Þetta er ekki skítur heldur og hefur hvorki heilsufars- né bragðáhrif. Þegar panna verður grá og guggin, jafnvel ryðguð og farið að festast við hana, þarf að steikja hana til upp á nýtt.
Það er hægt að steikja til allar óhúðaðar pönnur, þ.e. pönnur sem eru ekki húðaðar með gerviefnum. Þó er algjörlega nauðsynlegt að steikja til steypujárnspönnur, karbonstálpönnur og aðrar pönnur sem ekki eru ryðfríar. (Athugið að Lodge pönnurnar koma til steiktar frá framleiðanda!)
Steikingin þýðir nefnilega ekki bara að minna festist við pönnurnar. Hún gegnir líka því hlutverki að verja málminn fyrir ryði. Það er ekkert því til fyrirstöðu að meðhöndla ryðfría stálpönnu á þennan hátt og raunar er það mjög algengt í veitingageiranum. Þó er erfiðara að ná jafnri áferð og olían bindst síður krómblönduðu stálinu. Af þessum ástæðum mælum við ekki sérstaklega með því að steikja til ryðfría pönnu.
Hægt er að notast við hvaða feiti sem er til að steikja til pönnu. Við mælum þó með hitaþolinni olíu eins og repjuolíu, sólblómaolíu, kókosolíu eða aðra jurtafeiti. Þessar olíur hafa hátt brennslustig sem minnkar líkurnar á reykmettuðu eldhúsi og vælandi reykskynjara. Áður fyrr notaði fólk gjarnan tólg en hún er ekki jafn vinsæl í dag þar sem tólgin getur þránað með afar óskemmtilegum og illa lyktandi afleiðingum. Ef þú kýst að nota nota dýrafitu til að steikja til pönnuna þína er því eins gott að hún sé í stöðugri notkun. Til að viðhalda áferðinni er gott sleppa sápu og smyrja örþunnu lagi af jurtaolíu yfir pönnuna eftir þvott. Ef pannan verður klístruð þýðir það hins vegar að myndast hefur of þykkt lag af olíu sem ekki hefur náð að brenna inn í járnið. Oftast dugir að þrífa þetta lag af með heitu vatni og grófum bursta.
Fleiri aðferðir
Áður en panna er steikt til er best að þvo hana með heitu vatni og sápu. (Já, sápu!) Við viljum ná allri fitu og óhreinindum af. Nýjar pönnur eru oft húðaðar, ýmist með feiti eða gerviefnum, til að þær ryðgi ekki í flutningi. Notaðar pönnur þarf að skrúbba rækilega og ef pannan er ryðguð eða brunnið er við í henni er gott að nota stálull. Byrjið alltaf á þessu.
Ofnaðferðin
Þessi er vinsæl fyrir steypujárnspönnur. Hún notast við ofn svo pannan þarf að passa í hann og skaftið að þola ofnhita:
-
- Smyrjið pönnuna að innan sem utan með þunnu lagi af olíu eða feiti. Passið að setja ekki of mikið því þá verður pannan klístruð að steikingu lokinni.
- Þekjið ofnskúffu með álpappír tog komið henni fyrir neðst í ofninum.
- Hitið ofninn í 180°C.
- Setjið pönnuna á hvolf á grind efst í ofninum.
- Bakið í minnst klukkutíma og látið pönnuna kólna inni í ofni.
- Þurrkið umfram feiti af með pappírsþurrku.
Saltaðferðin
Þessi ágæta aðferð er keimlík þeirri einföldu sem við greindum frá fyrst en hér er notað salt. Saltið getur hjálpað til við að hreinsa ryð og óhreinindi af eldri pönnum:
-
- Hitið pönnuna yfir meðalhita.
- Setjið um það bil tvær teskeiðar af fínu salti á pönnuna og bætið matskeið af matarolíu út í.
- Þegar olían er orðin heit er saltinu og olíunni nuddað með bréfþurrku, fyrst yfir botninn á pönnunni og síðan yfir hliðarnar.
- Haldið áfram að nudda pönnuna yfir meðalhita í 2 til 3 mínútur.
- Takið síðan pönnuna af hitanum og þurrkið hana vel með hreinni tauþurrku.
Kartöfluaðferðin
Þetta er svolítið „gamaldags“ aðferð. Sterkjan úr kartöflunum leysir upp óhreinindi sem erfitt er að ná eftir öðrum leiðum. Ágætis leið til að nýta afganga úr eldamennskunni en passið ykkur á lyktinni!
-
- Fyllið botninn á pönnunni af kartöfluhýði.
- Hellið olíu yfir þar til hún flýtur yfir hýðið.
- Látið olíuna sjóða yfir meðalhita í 15-60 mínútur.
- Hendið kartöfluhýðinu og olíunni og þurrkið pönnuna.